Ragna Berg Gunnarsdóttir hefur verið ráðin í starf aðstoðarskólastjóra Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri frá og með 1. ágúst næstkomandi.
Ragna hefur starfað við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri frá 2017, fyrst sem umsjónarkennari en síðar við hin ýmsu störf meðfram umsjónarkennslu. Þar má nefna nemendaþjónustu, afleysingu deildarstjóra stoðþjónustu og deildarstjóra unglingastigs. Áður hafði hún starfað sem umsjónar-, og listgreinakennari við Hörðuvallaskóla, sem sjálfstætt starfandi dagforeldri, deildarstjóri á Kópavogshæli ásamt því að vera með sjálfstæðan rekstur.
Ragna hefur lokið B.ed í grunnskólakennarafræðum frá Háskóla Íslands, M.A. í Mennta- og menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst, viðbótardiplómu í opinberri stjórnsýslu, viðbótardiplómu í stjórnun menntastofnanna og söngnámi frá Tónlistarskóla Garðabæjar, Tónlistarskóla Kópavogs og Söngskóla Reykjavíkur.
Þá hefur Inga Jóna Bragadóttir verið ráðin í starf deildarstjóra stoðþjónustu við skólann. Inga Jóna hefur starfað sem þroskaþjálfi hjá BES í eitt skólaár en áður starfaði hún á leikskólanum Fífusölum sem sérkennslustjóri. Inga hefur lokið B.a.í þroskaþjálfun frá Háskóla Íslands.