Ragnar Ævar Jóhannsson hefur verið ráðinn heilsu-, íþrótta- og tómstundafulltrúi í Rangárþingi ytra.
Ragnar er 46 ára gamall og er starfandi deildarstjóri við Leikskólann Heklukot. Ragnar Ævar er menntaður tómstunda- og uppeldisfræðingur frá háskólanum í Linköping í Svíþjóð en hefur einnig lagt stund á tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Hann hefur veitt forstöðu tómstundaheimili í Svíþjóð og félagsmiðstöðinni Igló í Kópavogi ásamt því að hafa umsjón með unglingastarfi í félagsmiðstöðinni Árseli í Reykjavík og gegna stöðu íþróttastjóra Skautafélags Reykjavíkur. Þá hefur hann sinnt starfi deildarstjóra í leikskólunum Núpi, Hlíðarborg og Heklukoti.
Ragnar Ævar hefur einnig starfað við málun, unnið sem verktaki við pípulagnir auk þess að vera háseti til sjós. Hann hefur mikla reynslu og þekkingu á tómstundastarfi og íþróttahreyfingunni, hefur setið í stjórnum íþróttafélaga, þjálfað börn og unglinga og verið virkur í foreldrastarfi íþróttafélaga. Ragnar Ævar býr með fjölskyldu sinni á Hellu.
Umsækjendur um starfið voru 13 talsins.