Ragnheiður ráðin forstöðumaður

Ragnheiður Hergeirsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings.

Ragnheiður starfar sem félagsráðgjafi á geðsviði Landspítala háskólasjúkrahúss auk þess sem hún hefur verið aðstoðarmaður prófessors í félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands og hefur jafnframt sinnt stundakennslu.

Hún hefur víðtæka stjórnunarreynslu, var forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Suðurlandi og  verkefnastjóri hjá Vinnumálastofnun. Ragnheiður var um tíma félagsmálastjóri í félagsþjónustu Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslu og var bæjarstjóri í Árborg í eitt kjörtímabil auk þess sem hún hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Árborg og önnur sveitarfélög á Suðurlandi, Samband íslenskra sveitarfélaga og ráðuneyti. Hún starfaði áður sem yfirfélagsráðgjafi á Sogni og sem framkvæmdastjóri á svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Suðurlandi.

Ragnheiður mun taka við starfinu af Maríu Kristjánsdóttur sem sinnt hefur forstöðumannsstarfinu frá upphafi starfseminnar.  Hún mun nú hverfa til starfa hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Fyrri grein„Svolítið persónulegir tónleikar“
Næsta greinSelfoss bauð í markaveislu