Rakar af sér hárið fyrir hálfa milljón

„Þetta byrjaði með því að ég og vinkona mín tókum smá rugl á þetta og rökuðum hárið af öðru megin.

Það voru allir mjög sjokkeraðir yfir þessu og þá fór ég eitthvað að segja að ég gæti alveg rakað af mér allt hárið til að gefa þessum krúttum að borða. Svo fór ég svolítið að ofhugsa þetta, afhverju ekki og þetta byrjaði eiginlega allt þannig,“ segir hin 21 ára gamla Erna Kristín Stefánsdóttir frá Selfossi sem ætlar að raka af sér allt hárið ef hún nær að safna hálfri milljón króna. Upphæðin mun renna óskipt til ABC barnahjálpar en Erna segist alltaf hafa verið með þessi börn svolítið á heilanum.

Erna hefur alltaf verið með sítt hár að undanskildu þegar mamma hennar klippti á hana pottaklippingu þegar hún var í 2. bekk. Síðustu sex ár hefur Erna leyft hárinu að vaxa að vild og er það nú orðið 75 sm að lengd.

„Það eru allir að fríka út yfir þessu, fólk er með ákveðna dýrkun á hárinu á mér, allavega vinkonur mínar. Þær eru ekki að meika þetta, þeim finnst þetta stórmál,“ segir Erna hlæjandi en bætir því við fólki hafi þó almennt tekið þessu uppátæki hennar vel. „Kærastinn minn er bara slakur, hann er slakari en ég hélt. Ég var mjög stressuð að hann myndi fríka svolítið út en hann sagði að ég væri sæt hvort sem ég væri sköllótt eða ekki. En ég er ekki ennþá búin að segja mömmu frá þessu,“ segir Erna og hlær.

„Það verða örugglega mjög blendnar tilfinningar þegar hárið fer. Ég held að það sé svolítið stórmál fyrir stelpur að missa hárið,“ segir Erna sem býst við því að vera kölluð strákur eða piltur af eldra fólki en hún vinnur á Fossheimum á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Sá sem á hæsta framlagið í söfnunina mun fá þann heiður að raka hárið af Ernu. Ef svo ólíklega vill til að Erna nái ekki að safna hálfri milljón þá mun sá peningur sem safnast hefur samt sem áður renna til ABC barnahjálpar.

Nú þegar hafa safnast 37.000 krónur en söfnunin hófst í kvöld. Þeir sem vilja leggja málefninu lið geta lagt inn á 1169-15-200475. kt: 230391-2709

Auk þess hefur verið stofnaður viðburður á Facebook í kringum söfnunina sem má nálgast hér.

Fyrri greinHestheimar er bær mánaðarins
Næsta greinFengu verðlaun fyrir tóbakslausan bekk