Umtalsverðar breytingar verða á sorphirðu í Rangárvallasýslu á næstunni en Sorpstöð sýslunnar hefur samið við Gámakó hf um sorphirðu í sveitarfélögunum þremur.
Að beiðni sveitarfélaganna bauð Sorpstöð Rangárvallasýslu bs. út sorphirðu í sýslunni nú í sumar. Tvö tilboð bárust, frá Gámakó hf sem er dótturfélag Gámaþjónustunnar hf, og frá Íslenska Gámafélaginu ehf en tilboði Gámakó var tekið.
„Enn greiðum við talsverðar upphæðir með sorphreinsun og sorpeyðingu en í framtíðinni þarf þessi málaflokkur að standa undir kostnaði. Það gerist nú í nokkrum sveitarfélögum landsins,“ segir Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra.
Fyrirhugaðar eru umtalsverðar breytingar á sorphirðunni og má þar m.a. nefna að tvær tunnur verða við hvert heimili þ.e. venjuleg grátunna, eins og við höfum í dag og síðan svokölluð blátunna sem ætluð er fyrir dagblöð, pappír, pappa o.fl. Ætlunin er að minnka svo sem kostur er það sorp sem fer til urðunar.
„Við gerum okkur grein fyrir því að hér reynir á okkar ágætu íbúa en þetta er einfaldlega hluti af kröfum nútímans hvort sem okkur líkar betur eða verr,“ segir Ísólfur.
Í tengslum við þessa breytingar er stefnt að því að fækka gámavöllum og loka þeim þannig að þeir verði með gæslu, opnir á ákveðnum tímum, en ekki allan sólahringinn eins og nú er.
„Við munum kappkosta að kynna þessar breytingar eftir föngum en ef allt fer að skipum hefst sorphirða með þessum hætti 1. desember,“ segir Ísólfur.