Sveitarfélagið Rangárþing eystra hefur gert kauptilboð í hluta jarðarinnar Stórólfshvols, sem er í eigu Héraðsnefndar Rangæinga.
Kauptilboðið hljóðar upp á tæpar 121,3 milljónir króna og samþykkti héraðsnefndin það með fyrirvara um samþykki sveitarstjórna Ásahrepps og Rangárþings ytra, sem bæði hafa nú samþykkt tilboðið. Rangárþing eystra á um helminginn í jörðinni í gegnum héraðsnefndina og greiðir því tæpar 64,3 milljónir króna fyrir hlut hinna sveitarfélaganna. Um er að ræða um það bil 300 hektara lands.
Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, sagði í samtali við sunnlenska.is með kaupunum væri sveitarfélagið að tryggja sér byggingarland til framtíðar. “Við munum síðan leigja út slægjur og jafnvel selja land þegar fram í sækir,” sagði Ísólfur.
Rangárþing eystra hefur lengi haft hug á því að eignast jörðina en Sunnlenska greindi fyrst frá því vorið 2011 að sveitarfélögin þrjú hefðu hug á því að þessi viðskipti færu fram.