Sveitarstjórn Rangárþings ytra hefur ákveðið að hafna erindi Skaftárhrepps um möguleikann á sameiningu sveitarfélaganna tveggja ásamt Mýrdalshreppi og Rangárþingi eystra.
Mýrdalshreppur hafði þegar ákveðið að taka ekki þátt í sameiningarviðræðunum og Rangárþing eystra frestaði afgreiðslu erindisins.
Rangárþing ytra gerði könnun meðal íbúa sinna síðustu daga þar sem vilji þeirra til ýmissa sameiningarkosta var kannaður og gefa niðurstöðurnar til kynna að ekki sé mikill áhugi hjá íbúum fyrir þeim sameiningarviðræðum sem Skaftárhreppur óskar eftir.
Könnunin náði til 978 íbúa og svöruðu 603, þannig að svarhlutfallið var 61,7%. Alls vildu 21,2% hefja viðræður um sameiningu við Skaftárhrepp og Rangárþing eystra. Þá vildu 35,3% hefja viðræður um sameiningu við Rangárþing eystra en 43,5% vildu hætta öllum frekari sameiningarviðræðum við önnur sveitarfélög.
Niðurstöðurnar benda hins vegar til þess að það sé meirihlutavilji fyrir því að hefja viðræður við Rangárþing eystra þar sem 56,5% vilja hefja viðræður um samstarf þar sem Rangárþing eystra er þátttakandi, samanborið við 43,5% sem vilja hætta frekari viðræðum af þessu tagi að sinni.