Níu manns voru handteknir í tengslum við innbrot í veitingastaðinn Hafið bláa við Óseyrarbrú aðfaranótt sl. föstudags.
Málið er í rannsókn og hefur einn einstaklingur verið úrskurðaður í fjögurra vikna síbrotagæslu. Í tengslum við þetta mál er lögreglan að rannsaka mörg innbrot sem átt hafa sér stað í Þorlákshöfn að undanförnu.
Eins og fram hefur komið handtók lögreglan fimm manns á leið frá Hafinu bláa til Reykjavíkur. Hluti af þýfi af veitingastaðnum fannst í bifreið þeirra.
Síðar var gerð húsleit í Þorlákshöfn og þar fannst nokkuð af áfengi og öðrum munum sem tengdust innbrotinu. Þrír einstaklingar voru handteknir til viðbótar hinum fimm. Níundi einstaklingurinn var síðan boðaður til yfirheyrslu í lögreglustöð.