Rauði krossinn hefur opnað tímabundið fjöldahjálparstöðvar í Vík og á Kirkjubæjarklaustri.
Öskufall hefur verið mikið í Vík og nágrenni og svifryksmælingar í Vík hafa farið langt yfir heilsuverndarmörk.
Þeir sem ætla að fara af öskufallssvæðum eru beðnir um að skrá sig í fjöldahjálparstöð Rauða krossins. Í Vík er fjöldahjálparstöðin í Félagsheimilinu Leikskálum Víkurbraut 8 og á Kirkjubæjarklaustri í grunnskólanum.
Hagnýt ráð:
• Ráðlegt er að þeir sem eiga þess kost dvelji ekki á svæði þar sem öskufall er velsýnilegt en þeir sem þurfa að dvelja á öskufallssvæðum haldi sig sem mest innanhúss.
• Dragið úr öskumagni innanhúss með því að þétta glugga með límbandi. Ösku, sem fellur innanhúss er mikilvægt að hreinsa upp jafnóðum.
• Gætið þess að þyrla upp eins litlu af gosösku og mögulegt er þar sem hún hefur fallið.
• Úti við er mikilvægt að nota grímur og augnhlífar. Eiga þarf birgðir af grímum og skipta reglulega. Hægt er að nálgast grímur á heilsugæslustöðvum á öskufallssvæðum, fjöldahjálparstöðvum og í þjónustumiðstöðinni í Heimalandi.
• Akstur þyrlar upp ösku og því er mikilvægt að aka ekki nema nauðsyn krefji og gæta þess að halda ökuhraða í lágmarki.