Rauð viðvörun á Suðurlandi

Veðurstofan hefur uppfært veðurspá morgundagsins og gefið út rauða viðvörun sem gildir fyrir Suðurland frá því kl. 5 í fyrramálið og fram að hádegi.

Gul viðvörun er í gildi frá kl. 22 í kvöld og fram yfir miðnætti. Frá kl. 1 í nótt til kl. 5 er í gildi appelsínugul viðvörun, og aftur er appelsínugul viðvörun að liðinni þeirri rauðu frá hádegi á föstudag til kl. 14. Eftir það er í gildi gul viðvörun frá kl. 15 á morgun til kl. 6 á laugardagsmorgun.

Fárviðri og hættulegar vindhviður við fjöll
Gert er ráð fyrir austan roki eða ofsaveðri eða jafnvel fárviðri, 28-35 m/sek á Suðurlandi.

Búast má við hættulegum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 55 m/s, einkum undir Eyjafjöllum, við Ingólfsfjall og á heiðum.

Snjókoma verður á köflum og mikill skafrenningur líklegur. Búast má við miklum samgöngutruflunum og niðurfelling á þjónustu er líkleg.

Sjávarstaða er hækkuð og mikill áhlaðandi og ölduhæð. Hætta er á foktjóni og ekkert ferðaveður er á meðan rauðu og appelsínugulu viðvaranirnar eru í gildi. Fólki er bent á að ganga frá lausum munum og vera ekki á ferðinni.

Verst undir Eyjafjöllum í upphafi
Í kvöld gengur í austan 18-25 m/s og má búast við því að veðrið versni fyrst í Vestmannaeyjum og undir Eyjafjöllum. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 35 m/s, einkum undir Eyjafjöllum.

Eftir miðnætti verður komið austan rok eða ofsaveður, 25-33 m/s og eru samgöngutruflanir líklegar. Vegagerðin hefur gefið út tilkynningu um líklegar lokanir á vegum.

Fyrri greinLokanir vegna veðurs
Næsta greinSjáðu lægðina í beinni