Veðurstofan hefur gefið út rauða viðvörun á Suðurlandi vegna lægðarinnar sem kemur upp að landinu í nótt. Í kjölfar skila frá lægðinni er spáð illviðri á landinu í nótt og fyrramálið.
Appelsínugul viðvörun er í gildi á Suðurlandi frá klukkan 1:30 í nótt til klukkan 4 en rauð viðvörun tekur yfir á tímabilinu frá klukkan 4 í nótt til klukkan 8:30 í fyrramálið.
Gert er ráð fyrir suðaustan 23-30 m/sek með snjókomu og skafrenningi en slyddu næst sjávarsíðunni. Miklar líkur eru á foktjóni og samgöngutruflunum og er fólki ráðlagt að ganga vel frá lausum munum og verktökum bent á að ganga vel frá framkvæmdasvæðum.
Foreldrum er einnig bent á að fylgjast vel með hvernig skólahaldi verður háttað en búast má við að það verði fellt niður.