Þann 1. júlí síðastliðinn hætti Rauði krossinn fatasöfnun á Selfossi sem og annars staðar á landinu.
„Það komu ný lög frá Alþingi í sambandi við textíl og Íslenska gámafélagið er að taka við þessu. Fatasöfnunin hefur gengið mjög vel hingað til. Við höfum verið með sjálfboðaliða, tvo karlmenn, sem hafa séð um að tæma fatagámana og þakka ég þeim kærlega fyrir sín störf,“ segir Edda Björk Hjörleifsdóttir, formaður Rauða krossins í Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is.
Edda segir að fatasöfnun hafi aukist mjög mikið síðustu ár. „Ég er ekki alveg með það á hreinu hvenær Rauði krossinn byrjaði með fatasöfnun á Selfossi en ég giska á það séu fimmtán ár eða meira. Fólk mun geta farið með föt og annann textíl í grenndargáma sem eru merktir fyrir það.“
Fatabúð Rauða Krossins að Eyravegi 23
Fatagámar Rauða krossins hafa verið vel nýttir og má gera ráð fyrir því að það taki tíma fyrir fólk að venjast fjarveru þeirra. „Það verður bara að koma í ljós hvernig fólk tekur þessari breytingu. Það tekur örugglega tíma að venjast þessu. Ég vil biðja fólk að ganga vel um grenndargámana og ekki skilja fatnað skó og annan textíl út um allt. Og alls ekki skilja fatnað eftir fyrir utan Rauða Krossinn að Eyravegi 23. Við erum við með fatabúð á Eyravegi 23 og tökum þar á móti vel með förnum fatnaði og skóm,“ segir Edda ennfremur.
Grenndarstöðvarnar endurnýjaðar
Sveitarfélagið Árborg hóf að taka á móti textíl í grenndarstöðvum á síðasta ári. Íslenska gámafélagið tekur svo við textílnum og kemur í endurvinnslu.
Ágúst Þór Bragason, deildarstjóri þjónustumiðstöðvar hjá Sveitarfélaginu Árborg, segir í samtali við sunnlenska.is að á næstu vikum verði grenndarstöðvarnar endurnýjaðar og nýjar settar upp.
„Það stendur til að setja upp grenndarstöð við Nytjamarkaðinn í Gagnheiði fyrir járnumbúðir, glerumbúðir og textíl. Íslenska gámafélagið þjónustar allar grenndarstöðvar í Árborg. Textíll ber ekki úrvinnslugjöld og mun allur kostnaður vegna þessa vera hluti af sorphirðu heimila og er greiddur sem hlutdeild í föstum kostnaði við sorphirðu,“ segir Ágúst.
„Við viljum hvetja íbúa til að ganga vel um grenndarstöðvarnar og henda eingöngu þeim flokkum sem tekið er á móti þar,“ bætir Ágúst við að lokum.