Sl. mánudag komu konur frá kvenfélögum í Flóahreppi í heimsókn á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi, til að færa stofnuninni höfðinglega gjöf til nýrrar göngudeildar lyflækninga við sjúkrahúsið á Selfossi.
Um er að ræða rúmlega 1,3 milljón króna peningagjöf en upphæðin safnaðist þegar félögin héldu saman basar á Þingborg nýverið.
Fram kom í máli forstjóra HSu, Herdísar Gunnarsdóttur, hversu mikilvægt það er fyrir stofnunina að eiga svona góða bakhjarla og seint verði fullþakkaður sá stuðningur sem kvenfélögin á svæðinu hafa sýnt í verki með gjöfum sínum og þann hlýhug sem býr að baki.
Kvenfélagskonum var síðan sýnd nýja göngudeildin, sem er búið að taka að hluta til í notkun, en verður formlega opnuð 12. desember næstkomandi. Megináhersla verður þar lögð á lyfjameðferð erfiðra lyflæknisvandamála svo sem krabbameinsmeðferð, en að auki verða þar starfræktar tvær blóðskilunarvélar fyrir nýrnabilaða einstaklinga og fer meðferðin fram í samráði við sérfræðinga frá LSH.
Meðferð erfiðra lyflæknisvandamála í heimabyggð mun létta líf skjólstæðinga stofnunarinnar all verulega og efla um leið starfsemi sjúkrahússins. Opnun deildarinnar er ekki síst að þakka öflugum stuðningi félagasamtaka sem og einstaklinga, sem lagt hafa verkefninu lið.