Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti á síðasta fundi sínum að leggja rautt teppi á anddyri og kaffistofu félagsheimilisins á Borg í Grímnesi.
Á fundi sveitarstjórnar þann 10. október síðastliðinn frestaði sveitarstjórn afgreiðslu málsins og samþykkti að efna til könnunar meðal íbúa um lit á teppinu á íbúafundi.
Atkvæðatalning fór þannig að rauður litur fékk 9 atkvæði, dökkgrár 8 atkvæði, ljósgrár og blár fengu 4 atkvæði hvor. Tveir seðlar voru auðir og tveir ógildir.
Tillaga húsnefndar var sú að valið yrði blátt teppi en sveitarstjórn samþykkti samhljóða að fara eftir niðurstöðu íbúakönnunarinnar.
„Rautt skal það vera,“ segir í bókun sveitarstjórnar.