Sundhöll Selfoss uppfyllti ekki reglugerð um öryggi á sundstöðum þegar banaslys varð þar fyrir skömmu. Starfsmanni sem vaktaði innilaug var gert að sinna öðrum störfum samhliða en það er óheimilt.
Það voru unglingspiltar í sundi sem fundu fimm ára gamlan dreng meðvitundarlausan í innilauginni á Selfossi. Hann var úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi daginn eftir. Eftir slysið sendi Heilbrigðiseftirlit Suðurlands bréf til sveitarfélagsins Árborgar og gerði athugasemdir við að Sundhöll Selfoss uppfyllti ekki nýja reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum.
Reglugerðin tók gildi um áramót og kveður meðal annars á um að starfsmenn sem vakta laugar megi ekki sinna öðrum störfum samhliða. Elsa Ingjaldsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, segir að í sundlauginni á Selfossi hafi starfsmanni, sem átti að vakta innilaugina þar sem slysið varð, verið gert að sinna öðrum störfum samhliða en það er brot á reglugerðinni. Þá segir hún að skylda ætti að ósynd börn væru með armkúta í sundi.
Elís Kjartansson, lögreglufulltrúi á Selfossi, segir að þrír starfsmenn hafi verið að störfum í sundlauginni þegar slysið varð. Rannsókn hafi leitt í ljós að starfsmaður í afgreiðslu hafi jafnframt átt að vakta innilaug, en svo virðist sem hann hafi ekki getað það vegna anna í afgreiðslunni.
Selfoss mun ekki vera eini staðurinn þar sem vaktmenn í sundlaugum eru látnir sinna öðrum störfum samhliða. Sveitarfélagið Fjarðabyggð fékk til að mynda undanþágu til að starfsmenn mættu í senn sinna afgreiðslu og vöktun. Þá mátu heilbrigðiseftirlit og ráðuneyti hvort starfsmenn gætu bæði vaktað laug og verið í afgreiðslu. Sundhöll Selfoss sótti hinsvegar ekki um slíka undanþágu og fór ekki í gegnum slíkt matsferli.
Í vikunni boðaði Umhverfisráðuneytið til fundar vegna banaslyssins á Selfossi enda virðist sem nýja regugerðin hafi ekki haft tilætluð áhrif. Í kjölfarið sendi Samband íslenskra sveitarfélaga öllum sveitarfélögum bréf þar sem þau eru minnt á að uppfylla þurfi reglugerðina. Þar er sérstaklega bent á ákvæði um að vaktmenn sinni ekki öðrum störfum samhliða. Einnig að einungis foreldrar og beinir forráðamenn megi fara með fleiri en tvö börn undir tíu ára aldri í sund.
Myndavélar hafa nú verið settar upp í innilauginni þar sem slysið varð en ákvörðun um að setja vélarnar upp var tekin áður en slysið varð.
RÚV greindi frá þessu