Bæjar- og menningarhátíðin Regnboginn, list í fögru umhverfi, verður haldin í Vík í Mýrdal dagana 10. til 12. október næstkomandi. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá þar sem allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Eiríkur Vilhelm Sigurðsson, framkvæmdastjóri hátíðarinnar segir að tónlistin skipi stóran sess á hátíðinni nú sem endranær og kemur tónlistarfólkið að þessu sinni bæði úr Mýrdalnum og annars staðar af landinu.
Tónleikar og skemmtun verða bæði kvöldin í íþróttahúsinu þar sem Árný Árnadóttir, Beggi blindi, Elva Dögg Gunnarsdóttir og Hviðmávarnir koma fram. Á laugardagsmorgninum ætlar Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri og konan hans að bjóða Mýrdælingum í morgunverð á heimili sitt við Sunnubraut 7.
Í Suður-Vík standa tvær myndlistasýningar yfir á efri og neðri hæð, Guðrún Sigurðardóttir opnar gallerýið sitt fyrir gestum og gangandi. Í Kötlusetri verður ljósmyndasýning Varyu Lozenko en hún er langt komin með verk sitt þar sem hún hefur ljósmyndað 0,1% þjóðarinnar. Regnbogamarkaðurinn verður á sínum stað og mun Dagný Kristjánsdóttir sýna servíettusafn sitt þar. Áslaug og Siggi bjóða gestum í gönguferð um Víkurþorpið, Ævar vísindamaður kíkir í heimsókn og kaffihúsin hafa opið lengur um helgina.
Framrás býður upp á alvöru sveitaball í Leikskálum með hljómsveitinni Skítamóral í tilefni 25 ára afmælis fyrirtækisins í ár. Þá verður haldið upp á 80 ára afmæli Víkurkirkju á sunnudeginum og að því tilefni verður hátíð í kirkjunni á sunnudaginn með afmælismessu. Að messu lokinni verður messukaffi í Suður-Vík. Hljómsveitin Árstíðir ljúka hátíðinni að þessu sinni á ljúfu nótunum.
„Regnbogahátíðin á sér margt velgjörðarfólk og eru allir tilbúnir að aðstoða við undirbúning hennar, ungir sem aldnir. Fyrir það erum við í undirbúningsnefndinni afar þakklát. Við þökkum öllum fyrir hjálpina,“ segir Eiríkur Vilhelm.