Regnvatn komst í bensíngeymi í Hveragerði

N1 í Hveragerði. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í gærkvöldi varð starfsfólk N1 í Hveragerði þess áskynja að regnvatn hefði komist í birgðageymi bensíns við stöðina. Strax í kjölfarið var sala af geyminum stöðvuð og vinna hafin við bilanagreiningu.

Nokkrir ökumenn lentu í vandræðum vegna þessa og við talningu í dag taldi heimildarmaður sunnlenska.is einar sex bifreiðar sem stöðvast höfðu á leið upp Kambana.

Í tilkynningu frá N1 segir að starfsfólk hafi unnið að því í dag að ná sambandi við alla þá sem keyptu bensín 13. og 14. janúar á N1 í Hveragerði til að bjóða þeim þjónustu við úrbót sinna mála vegna óhappsins.

Jafnframt hvetur N1 þá ökumenn, sem enn hefur ekki náðst samband við, til að setja sig í samband við fyrirtækið með því að hringja í síma 440-1000 eða senda tölvu­póst á net­fangið silja@n1.is.

Fyrri greinHM veisla í miðbæ Selfoss
Næsta greinBjarni hættur hjá SASS