Reiðarslag fyrir Sunnlendinga

Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga mótmælir harðlega fyrirhuguðum niðurskurði á framlögum til heilbrigðisstofnana á Suðurlandi.

Niðurskurðurinn nemur um 16, 1% hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands , 23,8% hjá Heibrigðisstofnuninni í Vestmannaeyjum og 16 % hjá Heilbrigðisstofnun Suðausturlands.

Í ályktun stjórnar SASS segir að niðurskurðurinn leiði til þess að verulega verði dregið úr þjónustu heilbrigðisstofnana á Suðurlandi, öryggi sjúklinga minnki og kostnaður þeirra og aðstandenda eykst.

“Í reynd leggst hefðbundin sjúkrahúsþjónusta af. Sjúklingar þurfa því að sækja þessa þjónustu til Reykjavíkur sem þýðir að viðbragðstíminn lengist, ekki síst að vetri til þegar allra veðra er von. Þá leiðir niðurskurðurinn til uppsagna allt að eitt hundrað einstaklinga. Niðurskurðurinn er því reiðarslag fyrir sunnlendinga á fleiri en einn veg.

Í heild nemur niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu um 5%. Það vekur athygli með ofangreindar tölur í huga að niðurskurðurinn hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands er einungis 3,1%. Þá eru nánast óbreyttar tölur á milli ára hjá Landspítalanum. Sama gildir um sjúkrahúsið á Akureyri. Af þessu verður ekki dregin önnur ályktun en sú að tækifærið hafi verið notað til að færa verkefni frá héraðssjúkrahúsunum, að Akranesi undanskildu af einhverjum ástæðum, til Landspítalans og sjúkrahússins á Akureyri. Hefur þá ræst langþráður draumur forráðamanna Landspítalans og treystir málatilbúnað þeirra um nauðsyn byggingar hátæknisjúkrahúss í Vatnsmýrinni. Stjórn SASS hefur miklar efasemdir um nauðsyn þeirrar byggingar og bendir á að nær væri að nýta þá fjárfestingu betur sem til staðar er á héraðssjúkrahúsunum áður en lagt er út í rándýrar framkvæmdir. Sérstaklega ætti þetta að vera stjórnmálamönnum ofarlega í huga sem nú glíma við gríðarlegan ríkissjóðshalla.

Þá vill stjórn SASS benda á að ríkið kaupir mikla þjónustu af einkastofum/sjúkrahúsum í Reykjavík vegna ýmissa aðgerða sem þar eru framkvæmdar sem auðveldlega mætti sinna í stórauknum mæli á héraðssjúkrahúsunum sem þar að auki myndi spara sjúklingum mikinn kostnað og umstang. Það mætti annað hvort gera með því að færa niðurskurðinn af héraðssjúkrahúsunum yfir á Sjúkratryggingar Íslands eða skylda þá stofnun til að kaupa þjónustu í stórauknum mæli af héraðssjúkrahúsunum. Í raun er með þessum aðgerðum verið að herða á þeirri einkavæðingarþróun sem hefur orðið í heilbrigðiskerfinu á undanförnum árum.

Að lokum mótmælir stjórn SASS harðlega þeirri aðför að landsbyggðinni sem felst í umræddum niðurskurðartillögum. Aðförin er sérstaklega nöturleg í ljósi þess að landsbyggðin hefur átt undir högg að sækja í byggðaþróun á undanförnum áratugum og stjórnmálamenn hvar í flokki sem þeira standa hafa í orði kveðnu viljað stöðva þá þróun eða snúa henni við,” segir í ályktun stjórnar SASS.

Fyrri greinEngin viðbrögð frá Vegagerðinni
Næsta greinSuðurland baðað bleiku ljósi