Liðsmenn Björgunarfélags Árborgar heimsóttu Sunnulækjarskóla á Selfossi í morgun þar sem krakkarnir í 6. bekk fengu fræðslu um notkun á reiðhjólahjálmum og skyldubúnað reiðhjóla.
Þetta er hluti af átaki sem Slysavarnafélagið Landsbjörg ræðst um allt land, í samstarfi við Sjóvá. Krakkarnir fá fræðslu um notkun á reiðhjólahjálmum, skyldubúnað reiðhjóla og merkingu umferðarmerkja.
Þá var sett upp hjólreiðaþraut einnig voru tveir krakkar sem svöruðu léttum spurningum dregnir út og fengu þeir vinninga frá Sjóvá og Landsbjörgu.
Með átakinu vilja Slysavarnafélagið Landsbjörg og Sjóvá leggja sitt af mörkum til að krakkar á þessum aldri noti hjálm og noti hann rétt því oft á tíðum eru hjálmarnir ekki rétt stilltir og virka því ekki eins og skildi.
Alvarlegustu reiðhjólaslysin eru höfuðáverkar og það er einfalt að lágmarka hættuna með því að nota hjálm og stilla hann rétt. Það gildir bæði fyrir fullorðna og börn.