Reiður þorrablótsgestur á gangi í Kömbunum

Lögreglan á Selfossi fékk tilkynningu á sjötta tímanum í nótt um karlmann á fertugsaldri sem hafði farið í fússi af þorrablóti á Selfossi eftir að hafa sinnast við aðra gesti.

Hann hafði sagst ætla að ganga til Reykjavíkur og óttast var að hann látið verða af því, en úti var slydda og kuldi og maðurinn að auki spariklæddur og ekki klæddur til útivistar.

Vegna anna komst lögregla ekki til þess að sinna málinu strax, en þegar um hægðist var farið að leita mannsins og fannst hann þá á gangi ofarlega í Kömbunum.

Hann hafði þá tekið leigubíl til Hveragerðis og ákveðið að ganga þaðan til Reykjavíkur.

Svo heppilega vildi til að lögreglubíll frá Selfossi var á leið þangað og fékk maðurinn að fara með. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi sakaði manninn ekki af útivistinni.

mbl.is greindi frá þessu

Fyrri greinArionbanki tekur að sér rekstur og stýringu
Næsta greinHálfber á rölti við Reykholt