Landsvirkjun hefur undanfarið verið að skoða heppilegar staðsetningar fyrir mögulega vindorkuframleiðslu.
Skoðun þeirra hefur til þessa fyrst og fremst beinst að Suðurlandi. Margar og fjölbreytilegar rannsóknir eru nauðsynlegar áður en hægt er að meta fýsileika þess að reisa vindorkuver hér á landi segir Ragna Sara Jónsdóttir upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.
Meðal þess sem nauðsynlegt er að skoða í þessu samhengi er aðgengi að raforkukerfi og samgöngum, ísingarhættu og ekki síst vindafar. ,,Það er mjög mikilvægt að hafa góðar upplýsingar um vindafar áður en ráðist er í að reisa vindorkuver,“ sagði Ragna Sara.
Í þeim tilgangi að afla nánari upplýsinga um vindafar er Landsvirkjun að reisa vindmælimöstur á nokkrum stöðum á Suðurlandi, þ.á.m. við Búrfellsvirkjun. Að sögn Rögnu Söru er áformað að safna vindmælingum í að minnsta kosti ár áður en tekin verður ákvörðun um hvort farið verði út í verkefni af þessu tagi.