Uppsafnaður rekstrarvandi Skálholtsskóla er nú um 35 milljónir króna og hafa tekjur dregist talsvert saman undanfarið.
Eins og fram hefur komið á sunnlenska.is hefur Kirkjuráð sagt öllu starfsfólki Skálholtsskóla upp og taka uppsagnirnar gildi frá og með 1. desember næstkomandi. Uppsagnirnar ná til sjö starfsmanna en sumir hverjir eru bæði í störfum hjá skólanum og Skálholtsstað.
Að sögn Kristjáns Vals Ingólfssonar, vígslubiskups í Skálholti, eru uppsagnirnar alfarið ákvörðun Kirkjuráðs en hann átti fund með starfsmönnum skólans í síðustu viku.
Kristján Valur segir að höfð hafi verið til hliðsjónar skýrsla sem unnin var af Vilhjálmi Bjarnasyni viðskiptafræðingi og fleirum um stjórnsýslu staðarins. Það var niðurstaða skýrsluhöfunda að yfirmenn væru of margir. Auk rektors ná uppsagnirnar einnig til framkvæmdastjóra Skálholtsskóla og ráðsmanns en störf þeirra skiptast á milli skólans og kirkjuembættisins. Sömuleiðis nær uppsögnin til organista staðarins en hann starfar þó einkum fyrir kirkjuna.
Kristján Valur sagðist halda að ekki væri vilji fyrir því að loka skólanum en ljóst væri að endurskipulagning rekstrarins væri nauðsynleg.