Rekstri Fákasels á Ingólfshvoli í Ölfusi hefur verið hætt. Þar gátu ferðamenn fengið að kynnast íslenska hestinum í návígi en einnig er veitingastaður auk verslunar á Fákaseli.
Morgunblaðið greinir frá þessu.
Hestaleikhúsið í Fákaseli hefur verið starfrækt í rúm þrjú ár en síðasti hópurinn af erlendum ferðamönnum sótti staðinn heim á miðvikudaginn í síðustu viku.
„Reksturinn hefur ekki gengið sem skyldi. Það er fyrirséð að það verður tap á þessari fjárfestingu en hversu mikið vitum við ekki enn,“ segir Helgi Júlíusson, einn stjórnarmanna Fákasels ehf, í samtali við Morgunblaðið.
Verulegt tap hefur verið á rekstrinum frá því hann hófst 1. febrúar árið 2014 og ekki eins margir gestir sótt Fákasel heim eins og ráðgert var í upphafi.
Um 10 stöðugildi starfsmanna voru í Fákaseli ehf.