Framkvæmdastjórn Sólheima í Grímsnesi hefur ákveðið að hætta rekstri þar sem hún treystir sér ekki til að reka Sólheima miðað við fjárveitingar sem eru ætlaðar til rekstursins.
Óvissa hefur verið um rekstur Sólheima í nokkurn tíma. Þjónustusamningur við ríkið var ekki endurnýjaður þar sem málefni fatlaðra verða flutt til sveitarfélaga um áramótin.
Guðmundur Ármann Pétursson, framkvæmdastjóri Sólheima, segir að allra leiða verði leitað til að fá aðra aðila til að taka reksturinn yfir, t.d. sveitarfélög. „Ég get staðfest það að ákvörðun fulltrúaráðs Sólheima er á þann veg að óbreyttu þá er búið að kippa þjónustugrundvellinum undan þjónustu við fatlaða á Sólheimum,“ Sagði Guðmundur Ármann í hádegisfréttum RÚV.
Boðað hefur verið til blaðamannafundar um málefni Sólheima klukkan 14 í dag en alls búa 42 fatlaðir einstaklingar á Sólheimum.