Rekstur Árborgar betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir

Ráðhús Árborgar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ársreikningur Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2023 var lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í gær. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta var neikvæð um 1.269 milljónir króna á árinu 2023.

Samkvæmt fjárhagsáætlun ársins 2023 var gert ráð fyrir 1.856 milljón króna neikvæðri rekstrarniðurstöðu en uppfærð áætlun með viðaukum gerði ráð fyrir 1.694 milljóna króna neikvæðri rekstrarniðurstöðu.

„Þrátt fyrir neikvæða rekstrarniðurstöðu má með sanni segja að niðurstaða ársins sé töluvert betri en fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir,“ segir í tilkynningu frá Fjólu Kristinsdóttur, bæjarstjóra.

Tekjur ársins námu tæpum 18 milljörðum króna og hækkuðu um tæpa 2,7 milljarða frá fyrra ári. „Það er ánægjulegt að sjá að tekjur hafa vaxið um leið og haldið hefur verið aftur af hækkun rekstrargjalda frá því sem lagt var upp með í fjárhagsáætlun,“ segir Fjóla.

Jákvæð rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði
Launakostnaður sveitarfélagsins nam tæpum 9,7 milljörðum króna, gjaldfærð hækkun lífeyrisskuldbindinga var 658 milljónir króna og annar rekstrarkostnaður nam rúmum 5,6 milljörðum króna. Framlegð af rekstri A og B hluta nam því tæpum 2 milljörðum þrátt fyrir að hækkun lífeyrisskuldbindinga væri um 430 milljónum hærri en áætlun gerði ráð fyrir.

Afskriftir rekstrarfjármuna námu 951 milljónum króna árið 2023 og rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var því jákvæð um rétt rúman 1 milljarð króna sem er mikil breyting frá fyrra ári en þá var rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði neikvæð um 599 milljónir króna.

Skuldaviðmið komið í 147,4%
„Eftir krefjandi rekstrarár, erfiðar aðgerðir og endurskipulagningu í rekstri sveitarfélagsins er afar ánægjulegt að sjá að skuldviðmið A og B hluta er nú komið í 147,4% en var 156,6% árið 2022 og stefndi í mun hærri tölu ef ekkert hefði verið að gert. Framlegð jókst verulega á milli ára eða úr 1,5% af tekjum árið 2022 í 11,1% árið 2023,“ segir Fjóla og bætir við að það sé styrkleikamerki að sjá að veltufé frá rekstri jókst verulega milli ára eða um tæpan 1,6 milljarð og nam rúmlega 1,7 milljarði króna eða því sem nemur 9,5% af heildartekjum.

Sveitarfélagið Árborg er áttunda fjölmennasta sveitarfélag landsins og þar starfa um 1.170 starfsmenn í 750 stöðugildum í árslok 2023, til samanburðar störfuðu 1.252 starfsmenn hjá sveitarfélaginu í 837 stöðugildum árið 2022. Laun og launatengd gjöld bæjarstjóra, bæjarráðs og bæjarstjórnar námu 104 milljónum króna árið 2023 en 107 milljónm króna árið 2022 og því um lækkun að ræða á milli ára.

Haldið áfram á braut ráðdeildar og ábyrgrar fjármálastjórnunar
„Þrátt fyrir batnandi grunnrekstur og aukna fjármunamyndun á það enn þá við að „betur má ef duga skal“. Verkefnið framundan er að halda áfram á braut ráðdeildar í rekstri og ábyrgrar fjármálastjórnunar, fylgja eftir aðgerðaáætlun bæjarstjórnar og byggja ofan á þann góða árangur sem þegar hefur náðst. Þannig tryggjum við sjálfbæran rekstur sveitarfélagsins til framtíðar og getu þess til að sinna lögbundnum verkefnum sínum ásamt því að veita íbúum sem allra besta þjónustu og til framtíðar lækkunar á álögum,“ segir Fjóla að lokum.

Fyrri greinHamar tekur forystuna
Næsta greinBreki á láni til Selfyssinga