Rekstur Sólheima tryggður út janúar

Bráðabirgðasamningur um rekstur Sólheima Grímsnesi var undirritaður á fundi framkvæmdastjóra Sólheima og sveitarstjórnar Árborgar í hádeginu.

Samkvæmt samningnum fá Sólheimar 23 milljónir núna um áramótin frá Árborg, sem tryggja reksturinn út janúar.

Engar breytingar verða því gerðar á Sólheiminum um áramótin. Gert er ráð fyrir að nýjar samningaviðræður um heildarsamning hefjist í byrjun næsta mánaðar sem taki við þegar bráðabirgðasamningnum er lokið.

Guðmundur Ármann Pétursson, stjórnarformaður Sólheima, segir að þetta samkomulag feli í sér yfirlýsingu um vilja beggja aðila til að ganga til formlegra viðræðna um gerð nýs þjónustusamnings. Af hálfu beggja aðila sé vilji til að klára þetta hratt. Samkomulag hafi orðið um að óska eftir því að ríkissáttasemjari hefði milligöngu um að leiða viðræðurnar.

Guðmundur sagði að þetta mál væri óþarflega flókið og erfitt vegna þess að löggjafinn hefði ekki tekist á við þetta mál heldur skilið það eftir í höndum Sólheima og sveitarfélagsins. „Ég tel að löggjafinn hafi brugðist okkur og við þurfum því að leysa mál sem átti að leysast annars staðar, en ég vona að það gangi vel. Það skiptir miklu að það finnist góð lausn,“ sagði Guðmundur í samtali við mbl.is.

Fyrri greinMiðasala gengur vel
Næsta greinHerjólfur siglir til Landeyjahafnar