Renate Hanneman, bóndi á Herríðarhóli, hefur sagt sig úr hreppsnefnd Ásahrepps en hún sat sinn síðasta fund þann 30. janúar síðastliðinn.
Í yfirlýsingu segir Renate að ástæðan fyrir afsögninni sé fyrst og fremst sú að of oft sé grundvallaratriðum sveitarstjórnarlaga í stjórnsýslu Ásahrepps ekki fylgt.
„Ég hef margsinnis gert athugasemdir um stjórnsýsluna við oddvita, oftast munnlega, en ekki haft erindi sem erfiði. Það er mjög erfitt að draga saman á einfaldan hátt hvernig stjórnsýslan er að bregðast og eins er erfitt að benda á einstök atriði t.d. í fundargerðum, því það sem sagt er á fundum ratar ekki alltaf þangað,“ segir Renate en nefnir sem dæmi að hún hafi ekki fengið gögn í hendur fyrir fundi og varamaður hafi ekki verið boðaður á mikilvægan nefndarfund.
„Sveitarstjórnarmálin í Ásahreppi hafa átt hug minn í meira en átta ár og ég þakka fyrir allan stuðning og samvinnu í gegnum tíðina. Mér þykir leitt að málin hafi þróast svona, en ég treysti mér ekki til að vinna við þessar aðstæður,“ segir hún.
Óhlutbundnar kosningar eru til hreppsnefndar í Ásahreppi en Renate var fyrsti varamaður í upphafi kjörtímabilsins. Hún tók hins vegar sæti í hreppsnefnd þann 1. ágúst sl. þegar Eydís Indriðadóttir fékk lausn úr sveitarstjórn. Það er því annar varamaður, Brynja Jóna Jónasdóttir, bóndi í Lyngholti, sem tekur nú sæti í hreppsnefndinni.
Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu