Rennsli í hámarki í Gígjukvísl

Vatnamælingamenn Veðurstofunnar að störfum við Gígjukvísl. Mynd úr safni. Ljósmynd: Veðurstofan/Njáll Fannar Reynisson

Vatnshæð í Gígjukvísl hefur verið nokkuð stöðug frá því í nótt sem bendir til þess að rennsli í ánni sé í hámarki. Búast má við að rennsli fari hægt minnkandi næstu daga þar til hlaupinu lýkur.

Frá miðnætti 15. janúar hefur jarðskjálftamælirinn á Grímsfjalli sýnt aukinn hátíðnióróa, en hann er talinn tengjast suðu í jarðhitakerfinu í Grímsvötnum sem gjarnan kemur fram í lok jökulhlaupa. Sambærilegur órói hefur mælst í síðustu Grímsvatnahlaupum sem ekki hafa hleypt af stað eldgosi.

Ef til eldgoss kæmi í Grímsvötnum er gert ráð fyrir því að ákafrar aukningar í smáskjálftavirkni yrði vart áður en gos hæfist. Lítil jarðskjálftavirkni hefur verið í Grímsvötnum í dag og um helgina, en frá því á föstudag hafa átta jarðskjálftar mælst þar, allir undir 2 að stærð.

Veðurstofan mun ásamt vísindamönnum Jarðvísindastofnunar Háskólans halda áfram að fylgjast náið með Grímsvötnum.

Fyrri greinSímalaus grunnskóli á Hellu
Næsta greinGul viðvörun á Suðausturlandi