Gunnhildur Katrín Hjaltadóttir og Hlynur Geir Hjartarson hafa tekið við rekstri Hárgreiðslustofu Önnu á Selfossi. Stofan hefur fengið algjöra yfirhalningu og nýtt nafn, og heitir nú Anna hárstofa.
Anna Guðrún Höskuldsdóttir stofnaði Hárgreiðslustofu Önnu árið 1976 en hún er þó hvergi nærri hætt og ætlar að halda áfram að vinna á nýju stofunni hjá tengdadóttur sinni. „Þetta er búinn að að vera ólýsanlega skemmtilegur tími síðan ég opnaði mína fyrstu hárgreiðslustofu í Stórholti 1 í Reykjavík,“ segir Anna sem var á þeim tíma ófrísk af Hlyni Geir.
„Geggjað að læra hjá Önnu“
„Það væri galin hugmynd að opna stofu ólétt í dag,“ segir Gunnhildur og hlær. „En þessi tímasetning hjá okkur er góð núna. Ég hafði ekki velt því mikið fyrir mér en fólk hafði spurt mig mikið út í það hvort ég tæki ekki við á endanum. Þetta er greinilega réttur tími fyrir okkur báðar, Anna er komin á besta aldur og börnin mín komin á þægilegan aldur, þannig að þetta hentar okkur vel núna,“ segir Gunnhildur.
Gunnhildur hefur unnið hjá Önnu alla tíð og lærði fagið hjá henni. „Það var geggjað að fá að læra hjá Önnu á stofu eins og þessari. Vinnan er svo fjölbreytt frá klippingum og litun upp í permanent og greiðslur,“ bætir hún við.
„Vildum bæta við smá lúxus“
Við eigendaskiptin ákváðu Gunnhildur og Hlynur að taka stofuna algjörlega í gegn, frá gólfefnum og uppúr og er útkoman glæsileg.
„Það er alltaf gott að gera þetta svolítið að sínu og okkur vantaði aðeins meira vinnupláss og þess vegna snerum við öllu við. Svo vildum við bæta við smá lúxus og viðskiptavinirnir eru hæstánægðir með þetta. Nú erum við komin með rosalega flotta og þægilega vaskastóla með rafmagni í fótskemlum og nuddi í baki og aðstaðan er frábær,“ segir Gunnhildur.
Auk Gunnhildar og Önnu eru þær Linda Rut Ragnarsdóttir og Margrét Helga Steindórsdóttir á stofunni og nýlega bættust í hópinn þau Gústaf og Unnur Ósk Lilliendahl, sem eru flutt aftur heim frá Svíþjóð.