Reykdal Máni vann málið gegn ríkinu

Reykdal Máni Magnússon, 3 ára drengur á Selfossi, vann í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur mál gegn íslenska ríkinu um að hrinda úrskurði mannanafnanefndar sem hafði hafnað beiðni hans um að bera eiginnafnið Reykdal.

Mannanafnanefnd taldi að eiginnafnið Reykdal bryti í bága við íslenskt málkerfi, en viðurkenndi þó að margir hefðu borið nafnið í gegnum tíðina – til dæmis afi Reykdals Mána, Reykdal Magnússon á Selfossi.

Foreldrar Reykdals Mána, Magnús Ninni Reykdalsson og Sóley Hulda Hólmarsdóttir, höfðuðu málið fyrir hönd sonar síns.

Héraðsdómur felldi í dag úr gildi úrskurð mannanafnanefndar um lögmæti nafnsins og kallaði dómari meðal annars til tvo málfræðinga, sér til aðstoðar í málinu. Magnús Ninni, faðir Reykdals Mána, segir að það sé gríðarlega sterkt að dómarinn hafi fengið álit sérfræðinga áður en dómurinn var kveðinn upp.

Það er mat héraðsdóms að mannanafnanefnd hafi ekki litið nægjanlega til samræmis- og jafnræðissjónarmiða þegar hún komst að því að nafnið Reykdal myndi brjóta í bága við íslenskt málkerfi. Þetta verði að telja verjulegan annmarka á úrskurði nefndarinnar og því ekki hjá því komist að fella úrskurðinn úr gildi.

“Við erum að sjálfsögðu mjög ánægð með þessa niðurstöðu eftir þriggja ára baráttu í þessu máli. Nú þurfum við að sækja um aftur hjá mannanafnanefnd og vona að ríkið áfrýji ekki dómnum. Þetta er falleg jólagjöf til okkar og ég efast ekki um að Reykdal Máni er hoppandi sæll og glaður eins og venjulega á leikskólanum,” sagði Magnús.

UPPFÆRT KL. 15:11

Fyrri greinRúmar sex milljónir á Suðurland
Næsta greinEnginn slasaðist þegar rúta fór útaf