Reykræstu íbúð á Selfossi

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi voru kallaðir út á þriðja tímanum í dag þegar tilkynnt var um reyk sem lagði frá íbúðarhúsi á Selfossi.

Íbúðin var mannlaus en í ljós kom að eldfast mót hafði gleymst á eldavélarhellu og hitnað undir. Töluverður reykur var í íbúðinni en greiðlega gekk að reykræsta hana.

Ríkisútvarpið greindi frá þessu og hefur eftir Lárusi Kristni Guðmundssyni, varaslökkviliðsstjóra, að þetta sé annað útkall dagsins en í morgun bárust nokkrar ábendingar vegna mikils reyks sem virtist leggja frá sumarbústað við Þingvallaveg. Reykurinn reyndist frá kamínu sem notuð var til að hita vatn fyrir heitan pott.

Fyrri greinFimm þyrluútköll á Suðurlandi um helgina
Næsta greinÞungur róður gegn Létti