Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu reykræstu íbúð við Smáratún á Selfossi í dag eftir að rjúka fór úr raftæki í íbúðinni.
„Við sendum reykkafara upp í risið í íbúðinni og hann sótti tækið. Það þurfti ekki að slökkva eld en það mátti ekki á tæpara standa, þetta fór sem betur fer vel en reykskynjarar fóru í gang og vöruðu heimilisfólkið við,“ sagði Jón Þór Jóhannsson, varðstjóri hjá BÁ, í samtali við sunnlenska.is.
Útkallið barst Neyðarlínunni kl. 15:04 og fór dagvaktin frá BÁ á Selfossi á vettvang. Engum varð meint af reyknum og gekk reykræstingin vel að sögn Jóns Þórs.