Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu voru kallaðir út á níunda tímanum í morgun þegar tilkynnt var um eld í bíl á Þjóðvegi 1 í Hveradölum.
„Þetta var jeppi með hestakerru en það reyndist ekki vera neinn eldur í honum, heldur bara reykur. Við sendum bíl frá Hveragerði á staðinn ásamt dagvaktinni á Selfossi, sem sneri reyndar við því það þurfti ekki annað en að kæla þetta aðeins,“ sagði Lárus Kristinn Guðmundsson, varaslökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is.
Brunavarnir Árnessýslu hafa haft í nægu að snúast síðustu daga en mannskapur frá slökkviliðinu hefur meðal annars lagt hönd á plóg við gróðureldana í kringum eldgosið á Reykjanesi.
„Það voru tveir menn á vakt þar í nótt en mér skilst að það sé útlit fyrir að slökkvistarfi þarna sé að ljúka,“ bætti Lárus við.