Reyndu að smygla miklu magni fíkniefna á Litla-Hraun

Litla-Hraun. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Rannsóknarsamvinna lögreglu á Suðurlandi og fangavarða á Litla Hrauni kom í veg fyrir að miklu magni meintra fíkniefna og lyfja væri smyglað inn á Litla-Hraun síðastliðinn föstudag.

Á Selfossi voru tveir karlmenn staðnir að því aðfaranótt föstudags að koma pakka fyrir í bifreið sem þeir vissu að ætti að fara inn á fangelsissvæðið um daginn. Pakkinn var haldlagður og innihaldið sent í efnagreiningu á rannsóknarstofu.

Á þessari stundu er ekki vitað hvaða efni er um að ræða.

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi kemur fram að kona var handtekin á Litla-Hrauni á föstudag þegar hún kom að heimsækja fanga. Grunsemdir vöknuðu um hún væri með ólögleg efni sem hún hygðist smygla inn í fangelsið og við nánari rannsókn kom í ljós að hún var með töflur innvortis.

Ekki er vitað hvernig töflur það voru en úr því verður skorið á rannsóknarstofu. Málin tvö eru ótengd.

Fyrri greinÖlvaður með átján farþega
Næsta greinÚrskurðaður í nálgunarbann eftir líkamsárás