Sigurður Hansen hefur verið ráðinn í stöðu rekstrarstjóra Nettó og Heiðar Róbert Birnuson tekur við nýrri stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra á verslunar- og mannauðssviði Samkaupa. Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs hjá Samkaupum, segir ráðningarnar munu styrkja allar verslanir fyrirtækisins og lítur björtum augum til framtíðar.
Sigurður tekur við sem rekstrarstjóri Nettó verslananna sem eru 21 talsins og staðsettar hringinn í kringum landið. Hann hefur áratugalanga reynslu í viðskipta- og rekstrarstjórn verslana, nú síðast sem viðskiptastjóri verslana og veitingareksturs á Keflavíkurflugvelli og þar á undan sem rekstrarstjóri verslana Hagkaups í yfir áratug.
Ráðningin kemur á frábærum tíma
„Við viljum styrkja Nettó á komandi árum og á þeirri vegferð stefnum við á ýmsar úrbætur fyrir viðskiptavini okkar um allt land til að geta haldið áfram að bjóða samkeppnishæft verð á lágvörumarkaði. Mikil og hröð uppbygging Nettó krefst þess að fundnar séu nýjar nálganir í rekstri og því erum við ánægð að fá reynslubolta eins og Sigurð til okkar í Samkaupaliðið. Framundan er opnun tuttugustu og annarrar Nettó verslunarinnar, við Eyrarveg á Selfossi, sem verður opnuð í 1.000 fermetra verslunarrými í austurhluta bæjarins, en þar er hröð uppbygging að eiga sér stað. Ráðningin kemur því á frábærum tíma,“ segir Gunnur.
Sigurður tekur við stöðunni af Heiðari Róbert Birnusyni, sem tekur við nýju hlutverki aðstoðarframkvæmdastjóra á verslunar- og mannauðssviði Samkaupa þar sem hann mun leiða umbótaverkefni og þróun þvert á fyrirtækið. Heiðar Róbert hefur unnið hjá Samkaupum undanfarin nítján ár og gegnt stöðu rekstrarstjóra Nettó og Kjörbúða en áður var hann verslunarstjóri hjá Nettó og Krambúðinni.