Engin ákvörðun hefur verið tekin um áframhaldandi rekstur Glugga- og hurðasmiðju Selfoss ehf. sem úrskurðuð var gjaldþrota 8. júní sl.
Að sögn skiptastjórans, Ólafs Daða Elíassonar hdl., er kröfulýsingarfrestur ekki runninn út ennþá og því ekki ljóst hvernig fjárhag búsins er háttað. Það var Sameinaði lífeyrissjóðurinn sem óskaði eftir gjaldþrotaskiptum.
Glugga- og hurðasmiðja Selfoss ehf. var dótturfélag Eðalhúsa og framleiddi glugga og hurðir bæði fyrir Eðalhús sem og almenna viðskiptavini frá árinu 2002. Í byrjun árs 2007 var starfsemin efld til muna þegar félagið flutti í nýtt húsnæði að Gagnheiði 72 á Selfossi og störfuðu 16 manns hjá félaginu þegar best lét.
Að sögn skiptastjórans er meðal annars verið að skoða hvort hægt er að selja rekstur og viðskiptasambönd.