Hæstiréttur dæmdi í dag íslenska ríkið til þess að greiða Grímsnes- og Grafningshreppi rúmar 234 milljónir króna. Málið snerist um deilur í tengslum við flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga en Landsréttur og héraðsdómur höfðu áður sýknað ríkið.
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að ríkinu hefði ekki verið heimilt að fella niður greiðslur til Grímsnes- og Grafningshrepps úr jöfnunarsjóði með reglugerð líkt og gert hefði verið í tilfelli sveitarfélagsins á árunum 2013-2016. Til þess hefði þurft lagastoð.
Hæstiréttur klofnaði í málinu en einn dómari af fimm, Benedikt Bogason, skilaði sératkvæði. Kemur þar fram að hann sé ósammála því að ákvörðun ríkisins hefði farið í bága við stjórnarskrána. Telur hann að umrædda reglugerð eiga stoð í lögum.
Fjögur önnur sveitarfélög hafa krafið ríkið um endurgreiðslur á sömu forsendum, meðal annars Ásahreppur sem krefst 79 milljón króna endurgreiðslu.