Íslenska ríkið hefur fallið frá forkaupsrétti jarðarinnar Heiði í Skaftárhreppi en á jörðinni er meðal annars náttúruperlan Fjaðrárgljúfur, sem er á náttúruminjaskrá.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur undirritað samkomulag við kaupanda jarðarinnar þar sem kaupandinn lýsir sig samþykkan því að vinna að friðlýsingu svæðisins, enda telja aðilar hagsmunum gljúfursins best borgið með friðlýsingu.
Í apríl barst ráðuneytinu erindi þar sem óskað var afstöðu ríkissjóðs til nýtingar forkaupsréttar á jörðinni. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að það sé mat þess að verndarþörf á svæðinu sé talsverð vegna mikils ágangs ferðamanna en hægt sé að ná markmiðum verndar án þess að ríkið gangi inn í kaupin. Með friðlýsingu svæðisins og samkomulagi við nýjan eiganda verði vernd svæðisins og nauðsynleg uppbygging sameiginlegt verkefni ríkisins og nýs eiganda. Eigendur annarra jarða sem Fjaðrárgljúfur er hluti af hafa einnig lýst sig viljuga til að vinna að friðlýsingu gljúfursins.
Samkvæmt tilkynningunni verða bílastæðagjöld innheimt á svæðinu og skulu þau alfarið renna til uppbyggingar þjónustu og innviða á svæðinu en ekki verður tekinn aðgangseyrir af þeim sem ekki nýta bílastæðið.
„Það er ánægjulegt að samkomulag hafi náðst við kaupanda Fjaðrárgljúfurs um vernd svæðisins og eðlilegt að ríkið og eigendur standi saman að uppbyggingu þessarar náttúruperlu sem ferðamenn njóta þess að heimsækja,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Forkaupsréttur ríkisins hvílir áfram á jörðinni komi hún aftur til eigendaskipta.