Íslenska ríkið hefur tekið Kumbaravog á Stokkseyri til leigu fyrir móttöku hælisleitenda sem eiga umsókn um alþjóðlega vernd. Á fundi bæjarráðs Árborgar í morgun kom fram að þetta sé gert án vitneskju sveitarfélagsins, sem telur staðsetninguna óheppilega.
Kumbaravogur er fyrrverandi dvalar- og hjúkrunarheimili, austast í þorpinu á Stokkseyri og í bókun bæjarráðs er bent á að staðsetningin sé óheppileg, þegar horft er til þjónustunnar sem hópurinn þarfnast. Samkvæmt heimildum sunnlenska.is verður pláss fyrir 54 hælisleitendur á Kumbaravogi.
Sveitarfélagið Árborg er nú þegar móttökusveitarfélag við flóttafólk og hefur sinnt þjónustu sinni með samningi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið. Bæjarráð telur að sveitarfélagið geti útvíkkað gildandi samning við ráðuneytið og tekið á móti allt að 75 einstaklingum. Þannig megi betur tryggja farsæla þjónustu og aðlögun.
Vilja útvíkka samning um móttöku flóttafólks
„Sveitarfélagið Árborg leggur áherslu á að frá því að samræmd móttaka flóttafólks hófst þann 1. apríl 2021 hefur sveitarfélagið sinnt í heildina 44 einstaklingum. Við leggjum til að sá samningur verði útvíkkaður, svo að hægt sé að tryggja betur farsæla þjónustu og aðlögun,“ sagði Fjóla St. Kristinsdóttir, bæjarstjóri, í samtali við sunnlenska.is.
„Sveitarfélagið hefur enga aðkomu að móttökunni á Kumbaravogi, hún er alfarið í umsjón ráðuneytisins. Það er hins vegar ljóst að þessi hópur mun þurfa á þjónustu að halda, til dæmis varðandi verslun og heilsugæslu og því teljum við staðsetninguna á Kumbaravogi ekki heppilega,“ bætir Fjóla við.