Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur samþykkt að veita fimm milljónum króna til frekari hönnunar menningarsalarins á Selfossi.
Sveitarfélagið Árborg hefur leitað eftir því að ríkið komi að fjármögnun vegna uppbyggingar salarins sem hefur staðið ófullgerður í rúma fjóra áratugi í húsakynnum Hótel Selfoss.
Með ákvörðun ríkisstjórnar frá árinu 1999 var ákveðið að menningarhús á Suðurlandi yrði í Vestmannaeyjum en þar var menningarhúsið Eldheimar opnað árið 2014. Nú hefur verið ákveðið að veita 5 milljónum króna til frekari hönnunar menningarsalarins á Selfossi.
Í viðræðum mennta- og menningarmálaráðuneytis við sveitarfélagið Árborg á undanförnum mánuðum hefur ítarlega verið farið yfir forsendur þarfagreiningar og kostnaðaráætlunar vegna salarins. Endurskoðuð þarfagreining gerir ráð fyrir nauðsynlegum breytingum, meðal annars í anddyri, móttöku og frágangi utandyra og hljóðar uppfærð kostnaðaráætlun upp á 472 milljónir króna og gerir ráð fyrir að framkvæmdir myndu taka um 2-3 ár.
Fulltrúar sveitarstjórnar Árborgar hafa óskað eftir því að framlag ríkisins verði 60% líkt og við uppbyggingu menningarhúsa víða um landið.