Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að auka við eignarhluta ríkisins á Keldum á Rangárvöllum. Þetta er gert til þess að unnt verði að varðveita menningarminjar á Keldum við sem bestar aðstæður, gera þær aðgengilegar almenningi og gera staðinn aðgengilegan gestum.
Í frétt frá Þjóðminjasafninu segir að Keldur séu einstakur sögustaður og einn af merkustu minjastöðum á Íslands og má ætla að þar hafi orðið byggð stuttu eftir landnám. Á Keldum er varðveitt einstök heild bæjar- og útihúsa frá fyrri tíð og fornleifar elstu byggðar.
Með heimild í fjárlögum fyrir árið 2021 var á dögunum gengið frá kaupum sem ná 130 ha lands og allra fornra bygginga og mannvirkja næst Keldnabænum og landbúnaðarbygginga frá síðari hluta 20. aldar. Kaupin tryggja lóðarréttindi, sjónlínur og verndarsvæði í næsta nágrenni bæjarins, þ.e. menningarlandslagið í heild með búsetuminjum, húsum og rústum húsa.
Hefðbundinn búskapur á Keldum verður aflagður á þessu ári. Á næstu misserum er stefnt að því að gera við forn hús og mannvirki sem Þjóðminjasafn Íslands var að taka í sína umsjá og bæta og byggja upp aðstöðu til móttöku ferðamanna. Síðar á þessu ári verður bílastæði vestan við bæjarþyrpinguna stækkað og þar komið fyrir þjónustuhúsi með salernum. Sú framkvæmd er hluti Landsáætlunar um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.
Keldnabærinn er opinn daglega kl. 10:00 og 17:00 frá 1. júní til 31. ágúst.