Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu heilbrigðisráðherra sem felur í sér undirbúning tilraunaverkefnis um notkun sjúkraþyrlu til að styrkja sjúkraflutninga í landinu.
Þannig verður hægt að veita bráðveikum og slösuðum sérhæfða þjónustu með sem skjótustum hætti. Heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra hefur verið falið að útfæra fjármögnun og tímasetningu verkefnisins.
Í minnisblaði heilbrigðisráðherra til ríkisstjórnarinnar er lagt til að þyrlan verði staðsett á suðvesturhorni landsins þar sem útköll vegna slysa og bráðra veikinda eru tíð og hefur fjölgað mikið á síðustu árum á svæðinu, ekki síst á Suðurlandi þar sem straumur innlendra og erlendra ferðamanna hefur verið mikill og vaxandi. Horft er til þess að með þyrlunni og sérhæfðri áhöfn hennar megi stytta umtalsvert viðbragðstíma í útköllum. Þessi þjónusta myndi jafnframt draga úr fjarveru sjúkrabíla og lækna úr héraði og auka þannig öryggi á hlutaðeigandi svæði.
Enn fremur væru sjúkraflutningar með þyrlu á suðvesturhorninu mikil bót fyrir sjúkraflutninga fyrir Vestmannaeyjar sem er stærsta byggð Íslands án tengingar við „fastalandið.“