Lögreglan á Selfossi fékk í kvöld tilkynningu um eðlu sem spókaði sig í húsagarði við Álftarima á Selfossi.
Börn sem voru að leik í garðinum fundu eðluna. Þau hlupu inn nokkuð skelfd og tilkynntu föður sínum að það væri risaeðla í garðinum hjá þeim.
Eðlan er reyndar hin meinlausasta og reyndist lögreglu auðvelt að handsama hana. Hún kunni vel við sig úti í sólinni í dag en á Selfossi var 22°c hiti.
Frímann Birgir Baldursson, varðstjóri, segist aldrei hafa séð svona stóra eðlu, en hún mældist 96 sm löng. Eðlunni verður lógað á morgun og hún síðan rannsökuð á Keldum. Eðlan er væntanlega innflutt en varsla á dýri sem þessu er brot á lögum um innflutning á dýrum.
Eðlur sem þessar kallast kembur, eða græneðlur (Iguana iguana). Hún á heimkynni sín í Mið-Ameríku, frá Mexíkó til Brasilíu. Kembur eru flestar jurta-, lauf- og ávaxtaætur en tegundir af ættkvíslinni éta einnig hryggleysingja í æsku.