Hin árlega góðgerðarvika Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands hófst formlega í dag með því að bæði skólameistari og formaður nemendafélagsins voru „rjómaðar“.
Í góðgerðarvikunni er efnt til fjölbreyttra viðburða þar sem markmiðið er að safna fyrir gott málefni. Í ár urðu Píeta-samtökin fyrir valinu en samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur.
Í hádeginu í dag gafst fólki kostur á að „rjóma“ Soffíu Sveinsdóttur, skólameistara FSu og Dýrleifu Nönnu Guðmundsdóttur, formann NFSu, í miðrými skólans. Þúsund krónur kostaði að rjóma skólameistarann og fimm hundruð krónur að rjóma formanninn.
Fólk fékk þá rjóma á pappadisk sem það kastaði í Soffíu eða Dýrleifu – eða jafnvel báðar. Einnig var hægt að kaupa vöfflu með rjóma á staðnum og sérstakt þrennutilboð var fyrir vöffluna og að rjóma bæði formanninn og skólameistarann. Tilboð sem margir nýttu sér.


Innvígsla fyrir nýja skólameistarann
Margir tóku þátt í rjómakastinu og var stemningin góð, bæði meðal nemanda og starfsfólks og þeirra sem urðu fyrir rjómakastinu. „Það sem maður gerir ekki fyrir góðan málstað,“ segir Dýrleif glöð í bragði í samtali við sunnlenska.is.
„Það er hefð fyrir því að formaður nemendafélagsins láti rjóma sig í góðgerðarvikunni en í ár ákváðum við að bæta Soffíu við til að bjóða hana velkomna í skólann,“ segir Dýrleif en Soffía tók við stöðu skólameistara í ágúst síðastliðnum.


Soffía segir að það hafi verið sjálfsagt mál að taka þátt í svona viðburði í þágu góðs málefnis. „Verst var að fá rjómann í augun, mig svíður enn í augun. Það var líka óþægilegt þegar rjóminn náði að leka inn undir fötin. Svo klæjaði mig líka mjög í nefið,“ segir Soffía hlæjandi.
„En málefnið er mjög þarft og þetta er skemmtilegt uppátæki hjá NFSu. Mér leið betur að hafa Dýrleifu þarna með mér, að vera ekki ein.“


NFSu húðflúr á bossann
Sem fyrr segir verða fjölbreyttir viðburðir alla vikuna þar sem fólki gefst kostur á að leggja góðu málefni lið. Þegar söfnunarféð hefur náð ákveðinni upphæð þá munu vissir nemendur taka áskorunum eins og til dæmis að mæta í stuttbuxum og með jólahúfu út önnina þegar upphæðin er komið í 200.000 kr, skríða frá heimavistinni í skólann þegar upphæðin er komin í 250.000 kr. og aflita á sér augabrúnirnar þegar upphæðin er komin í 350.000 kr. Þegar söfnunarféð verður komið í 400.000 kr mun Sigurður Ernir Eiðsson fá sér NFSu húðflúr á bossann.
Góðgerðarvikunni lýkur á föstudaginn með crossfit keppni og verður söfnunarféð afhent við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu Iðu. „Í fyrra söfnuðum við hálfri milljón, sem var met. Við vonumst til að gera enn betur í ár,“ segir Dýrleif bjartsýn að lokum.
Þeir sem vilja leggja málefninu lið geta lagt inn á eftirfarandi reikning hjá NFSu:
Kennitala: 660490-2569
Reikningsnúmer: 0189-26-006614


