Rjómasletturnar flugu í FSu

Skólameistari FSu rjómaður. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Hin árlega góðgerðarvika Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands hófst formlega í dag með því að bæði skólameistari og formaður nemendafélagsins voru „rjómaðar“.

Í góðgerðarvikunni er efnt til fjölbreyttra viðburða þar sem markmiðið er að safna fyrir gott málefni. Í ár urðu Píeta-samtökin fyrir valinu en samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur.

Í hádeginu í dag gafst fólki kostur á að „rjóma“ Soffíu Sveinsdóttur, skólameistara FSu og Dýrleifu Nönnu Guðmundsdóttur, formann NFSu, í miðrými skólans. Þúsund krónur kostaði að rjóma skólameistarann og fimm hundruð krónur að rjóma formanninn.

Fólk fékk þá rjóma á pappadisk sem það kastaði í Soffíu eða Dýrleifu – eða jafnvel báðar. Einnig var hægt að kaupa vöfflu með rjóma á staðnum og sérstakt þrennutilboð var fyrir vöffluna og að rjóma bæði formanninn og skólameistarann. Tilboð sem margir nýttu sér.

Soffía og Dýrleif rjómaðar. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Innvígsla fyrir nýja skólameistarann
Margir tóku þátt í rjómakastinu og var stemningin góð, bæði meðal nemanda og starfsfólks og þeirra sem urðu fyrir rjómakastinu. „Það sem maður gerir ekki fyrir góðan málstað,“ segir Dýrleif glöð í bragði í samtali við sunnlenska.is.

„Það er hefð fyrir því að formaður nemendafélagsins láti rjóma sig í góðgerðarvikunni en í ár ákváðum við að bæta Soffíu við til að bjóða hana velkomna í skólann,“ segir Dýrleif en Soffía tók við stöðu skólameistara í ágúst síðastliðnum.

sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Soffía og Dýrleif, vel rjómaðar. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Soffía segir að það hafi verið sjálfsagt mál að taka þátt í svona viðburði í þágu góðs málefnis. „Verst var að fá rjómann í augun, mig svíður enn í augun. Það var líka óþægilegt þegar rjóminn náði að leka inn undir fötin. Svo klæjaði mig líka mjög í nefið,“ segir Soffía hlæjandi.

„En málefnið er mjög þarft og þetta er skemmtilegt uppátæki hjá NFSu. Mér leið betur að hafa Dýrleifu þarna með mér, að vera ekki ein.“

Kennarar við skólann nýttu sér tækifærið til að rjóma skólameistarann. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Þrátt fyrir að svíða í augun og klæja í nefið þá var Soffía kát. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

NFSu húðflúr á bossann
Sem fyrr segir verða fjölbreyttir viðburðir alla vikuna þar sem fólki gefst kostur á að leggja góðu málefni lið. Þegar söfnunarféð hefur náð ákveðinni upphæð þá munu vissir nemendur taka áskorunum eins og til dæmis að mæta í stuttbuxum og með jólahúfu út önnina þegar upphæðin er komið í 200.000 kr, skríða frá heimavistinni í skólann þegar upphæðin er komin í 250.000 kr. og aflita á sér augabrúnirnar þegar upphæðin er komin í 350.000 kr. Þegar söfnunarféð verður komið í 400.000 kr mun Sigurður Ernir Eiðsson fá sér NFSu húðflúr á bossann.

Góðgerðarvikunni lýkur á föstudaginn með crossfit keppni og verður söfnunarféð afhent við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu Iðu. „Í fyrra söfnuðum við hálfri milljón, sem var met. Við vonumst til að gera enn betur í ár,“ segir Dýrleif bjartsýn að lokum.

Þeir sem vilja leggja málefninu lið geta lagt inn á eftirfarandi reikning hjá NFSu:

Kennitala: 660490-2569
Reikningsnúmer: 0189-26-006614

Athöfnin fór fram í miðrými skólans. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Sumir voru mjög samstíga í að kasta rjómanum. sunnlenska.is/Benedikt Hrafn Guðmundsson
Sturtan hefur líklega sjaldan verið jafn góð og eftir þessa rjómun. sunnlenska.is/Benedikt Hrafn Guðmundsson
Fyrri greinGrunur um fuglainflúensu í hröfnum
Næsta greinUpplestur í samstarfi við Steinunni Sigurðardóttur