Rjúpnaskytta sem leitað var að í nágrenni Heklu í kvöld er fundin. Björgunarsveitir í Rangárvallasýslu leituðu mannsins en einnig voru kölluð út teymi með leitarhunda.
Maðurinn, sem var einn á ferð, var í símasambandi um kl. 18 og taldi þá að hann ætti um klukkustundar gang til að komast í bíl sinn. Þegar ekkert hafði heyrst frá manninum rúmum þremur tímum síðar hófst leit að honum.
Laust eftir klukkan ellefu í kvöld heyrðist svo aftur frá manninum. Hann hafði þá komist í bíl sinn og gat gert vart við sig í gegnum farsíma en farsímasamband er mjög stopult á þessu svæði. Maðurinn var þá staddur inn við Svalaskarð, rétt við Friðland að Fjallabaki.
Veður var vont á svæðinu, kalt, slydda, töluverður vindur og mikið öskufjúk.