Um klukkan 16:30 voru björgunarsveitir í uppsveitum Árnessýslu kallaðar út vegna rjúpnaskyttu sem slasast hafði á Leggjabrjót, á milli Botnsdals og Þingvalla, rétt sunnan við Myrkavatn.
Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu hafði maðurinn dottið og við það hljóp skot úr haglabyssu hans og hafnaði það í aftanverðu læri mannsins.
Leiðin á slysstað var mjög torfær og erfið yfirferðar og var þyrla Landhelgisgæslunnar því kölluð á staðinn. Hún hífði hinn slasaða um borð og flutti hann á Landspítalann. Björgunarssveitir fylgdu félaga mannsins til byggða.
Í Facebookfærslu Hjálparsveitarinnar Tintron segir að það hafi sýnt sig í dag að bráðaviðbragð HSU á Þingvöllum skipti sköpum en bráðatæknir sem staðsettur er í þjóðgarðinum var fyrstur á slysstaðinn.