Eins og sunnlenska.is greindi frá í gær hafði lögreglan á Selfossi afskipti af tveimur rjúpnaskyttum sem voru við veiðar í þjóðgarðinum á Þingvöllum.
Lögreglu barst ábending í hádeginu í gær um mennina og var haft samband við Landhelgisgæsluna sem brást snarlega við með því að flýta þyrluæfingaflugi sem var fyrirhugað síðar um daginn. Þyrlu var flogið yfir svæðið með lögregluþjón innanborðs og fundust mennirnir fljótlega.
Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar voru fleiri rjúpnaveiðimenn á svæðinu í gær en þeir hefðu látið sig hverfa eins og minkar í holu þegar þeir urðu þyrlunnar varir og heitið því að þeir myndu ekki reyna veiðar í Þingvallaþjóðgarðinum aftur.
Byssur mannanna voru haldlagðar en hvorugur þeirra hafði náð bráð og þeir báru því við að hafa ekki vitað að þeir væru innan þjóðgarðs. Lögreglan segir frásögn þeirra gefa tilefni til að að árétta að menn kynni sér vel hvar er heimilt að vera við fuglaveiðar og hvar ekki.
Í dagbók lögreglunnar kemur fram að lögreglan sé afar þakklát Landhelgisgæslunni sem ætíð hefur verið boðin og búin þegar til hennar hefur verið leitað við löggæsluverkefni sem ekki verða unnin með góðu móti nema með þyrlu.