Vindmyllur Landsvirkjunar fyrir ofan Búrfell hafa verið í rekstri frá febrúar 2013, reksturinn hefur verið umfram væntingar og nú hefur komið í ljós einstaklega góð nýting á fyrsta heila rekstrarári, langt yfir heimsmeðaltali.
Á heimsvísu er nýtnihlutfallið (einn helsti mælikvarði á hagkvæmni staðsetningar) að meðaltali um 28%. Nýtnihlutfall vindmylla Landsvirkjunar var 44% á árinu 2014, sem var fyrsta heila dagatalsárið sem vindmyllur Landsvirkjunar voru í rekstri. Það er með því allra hæsta í heiminum og staðfestir að miklir möguleikar eru á frekari raforkuvinnslu úr vindorku á svæðinu. Rekstrarlegt tiltæki hefur verið tæplega 99% fyrir aðra vindmylluna og tiltæki hinnar um 97,5% árið 2014, sem sýnir hversu áreiðanlegar vindmyllurnar eru í rekstri.
Tvö svæði hafa verið til frekari skoðunar af hálfu Landsvirkjunar fyrir mögulega framtíðar uppbyggingu: Þjórsár- og Tungnaársvæðið (þar sem rannsóknarvindmyllurnar eru nú) og einnig virkjanasvæði Blöndustöðvar. Tillaga að áætlun mats á umhverfisáhrifum fyrir Búrfellslund liggur fyrir.