Rökkvi Hljómur Kristjánsson frá Hólum á Rangárvöllum er dúx Fjölbrautaskóla Suðurlands á haustönn 2014. Alls brautskráðist 91 nemandi frá skólanum síðastliðinn föstudag.
Þar af voru 66 sem luku stúdentsprófi en 33 brautskráðust af öðrum brautum. Átta nemendur luku prófi af tveimur brautum. Flestir stúdentanna brautskráðust af náttúrufræðibraut, 31 talsins. Fimm luku stúdentsprófi að loknu starfsnámi og einnig voru ellefu sjúkraliðar brautskráðir.
Rökkvi Hljómur og Karen Engilbertsdóttir, frá Nefsholti, hlutu viðurkenningu frá Hollvarðasamtökum FSu. Rökkvi Hljómur hlaut að auki viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í íslensku, sögu, stærðfræði og latínu. Karen hlaut viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í spænsku og raungreinum.
Sóley Sævarsdóttir Meyer frá Ásmúla í Ásahreppi hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í ensku. Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir frá Selfossi hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í félagsfræði. Margrét Lúðvígsdóttir frá Selfossi hlaut viðurkenningu fyrir frábæra frammistöðu og eljusemi í fimleikaakademíu og Svavar Berg Jóhannsson frá Selfossi hlaut viðurkenningu fyrir störf að félags- og nemendamálum.