Fyrsta barnið sem fæddist á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á þessu ári var hraustur drengur sem kom í heiminn kl. 19:54 í gærkvöldi.
Drengurinn hefur verið nefndur Rökkvi en foreldrar hans, Bergþóra Stefánsdóttir og Trausti Davíð Karlsson, búa á Selfossi. Bergþóra er frá Egilsstöðum og Trausti Davíð frá Hellu. Rökkvi litli á þrjár systur og einn stóran bróður.
Fæðingin gekk vel en Rökkvi var tæpar 15 merkur og 51 sm. Bergþóra var sett þann 8. janúar en Rökkva lá á að koma í heiminn enda átti pabbi hans bókað flug til Noregs snemma í morgun, þar sem hann vinnur hjá Ístaki.
„Það var skemmtilegt að Trausti náði að vera viðstaddur fæðinguna. Við innrituðum hann í flugið á netinu áður en við brunuðum upp á sjúkrahús en hann var búinn að gera ráð fyrir því að missa örugglega af fæðingunni,“ sagði Bergþóra í samtali við sunnlenska.is.
Það var Arndís Mogensen, ljósmóðir, sem tók á móti fyrsta Sunnlendingnum þetta árið.